Vitund hjá almenningi á góðri hönnun eykst með hverju árinu. Það er einfaldlega meiri unaður við það að kaupa, skoða og nota fallega hönnun. Hvort sem það eru fallegar pakkningar, notendavænar heimasíður eða skemmtileg auglýsing þá er fólk líklegra til að bregðast við (e. interact) fallegri hönnun heldur en ekki. Þannig skara fyrirtæki sem kunna að meta góða hönnun fram úr á markaði. Við ákváðum því að taka saman nokkra strauma sem við teljum að eigi eftir að standa upp úr árið 2019.

Skærir litir

Okkur finnst alltaf gaman að leika okkur með skæra og öskrandi liti. Mörg fyrirtæki hafa hins vegar óttast slíkar aðgerðir og valið öruggari leiðir. Á síðasta ári reið Arion banki á vaðið með skærum bláum og bleikum lit í endurmörkun á bankanum. Við teljum ísinn vera brotinn og að önnur fyrirtæki eigi eftir að fylgja í kjölfarið og þora að verða töluvert hugaðri í litarvali.

Stígandi litir (e. gradients)

Það muna flestir eftir tilfinningu þegar hægt var að nota word-art í ritgerðinni sinni og manni leið eins og grafískum hönnuði! Stígandi litir slógu í gegn 1995, komu aftur 2018 og munu blómstra 2019, að okkar mati.

Brutal design

Næsta stig af skærum litum fyrir fyrirtæki sem þora – enn meira! Hönnun sem hneykslar og vekur mikla athygli. Hönnun sem nánast er hægt að segja að er svo ljót, að hún er falleg. Við vonumst til að fyrirtæki þori að þreifa sig áfram á þessari braut á árinu, til þess að skara fram úr.

Grafískar teikningar

Grafískar teikningar hafa sannað sitt gildi í mörkun og markaðsefni. Það er okkar mat að fyrirtæki munu í auknu mæli láta sérteikna myndir fyrir sig, sem tala þeirra tungumáli, á árinu.

Þrívíðar myndir

Þrívídd á ekki bara heima í bíómyndum! Fallegar þrívíðar abstract myndir eiga líka heima á öðrum stöðum. Svipað og er nefnt í ofangreindum hluta um grafískar teikninga, þá teljum við að fyrirtæki eigi eftir að nota þrívíðar myndir í auknum mæli á árinu.

Hreyfing í firmamerkjum (e. logo)

Við viljum hafa líf í hlutunum. Við teljum að fyrirtæki munu sjá aukið virði á árinu, í því að skapa sér sérstöðu með skemmtilegri hreyfingu í sínu merki sem passar við þeirra vörumerki.

Ísómetrísk hönnun

Þessi skemmtilegi teiknistíll hefur verið að skapa sér sess og við vonum og teljum að hann muni blómstra á árinu.

Micro animations

Það er eitthvað við það að fá góða endurgjöf á tökkum á vefsíðum með léttri hreyfimyndagrafík. Grafíkin gefur til kynna að eitthvað gerist ef ýtt er á hnappinn og eykur líkur á að smellt verði á hann og að hann skili sínum tilgangi. Þessi virkni er því mikilvægur þáttur í góðri notendaupplifun á vefsíðum sem við teljum að fyrirtæki munu leggja áherslu á í síauknum mæli á árinu.